Typpaleikur

Það var fótboltaleikur í Keflavík í dag. Það felur í sér þá miklu list að elta bolta þar til hann rúllar eitthvert skilst mér. Múgur og margmenni koma til að horfa á rúllið. Ég bý bakvið stúkuna. Þar af leiðandi ér ég búin að sjá öll typpin sem komu á leikinn. Karlmennin sem koma til að hvetja rúllið geta nefnilega alls ekki haldið vatni yfir þessu öllu saman og eru alveg í spreng af spennu. Þá fara þeir bakvið stúkuna og spræna þar. Konurnar hafa meiri stjórn á sér allavega sat engin kona á hækjum sér hérna úti.

Bara rosalegt OJBJAKK, vona að kettirnir hafi ekki séð þetta og séu skaddaðir á sálinni að eilífu.

 


Berbrjósta í vinnunni

Ég var á næturvakt í nótt.

Um tvö leytið var traffíkin búin og ekki von á næstu flugvél fyrr en um 5 leytið. þannig að ég fer að fylla á goskælirinn. Um að gera að vera snöggur að því svo maður geti átt lengri pásu. Ég byrja að skófla hverri gosflöskunni á fætur annarri í kælinn af miklum móð, þegar eitthvað fer að trufla mig, eitthvað flaksast svo skringilega í mig, sérstaklega þegar ég teygi mig innst í hilluna. Veiti því nú ekki mikla athygli til að byrja með, en þegar ég fann að þetta undarlega kitl virtist flökta einum of mikið í takt við handleggi mína fór mig að gruna að ekki væri allt með felldu.

Fannst ég kannast eitthvað við töddsið.

Áfyllingar-eldmóðurinn fjaraði smám saman út. Grunur minn varð æ sterkari.

 Eitthvað var ég skrýtin, ég varð að viðurkenna það. Dró búkinn með semingi út úr kælinum til að athuga málið. Bíddu nú við. Fór um mig höndum. Ha? Brjóstin, afhverju voru þau ber? Hvar er brjóstahaldarinn? Hvernig í veröldinni GLEYMDI ég að fara í hann. Það gat nú bara ekki staðist. Ég trúði þessu ekki og gáði aftur vel og vandlega.

Neibbs ekki nokkur tutla þarna innan undir vinnubolnum.

Djísús og Jeremías, búbburnar voru bara frjálsar og flaksandi þarna undir!

Hvernig getur rétt bráðum 38 ára kona gleymt að fara í brjóstahaldara þegar hún fer í vinnuna?  Hélt það væri líffræðilega ógerlegt, allavegana siðlaust. Mér féllust gjörsamlega hendur. Hvernig fór ég að þessu? Ég stóð á bara eins og asni og gapti af undrun og vantrú, bara trúði þessu ekki. Hugsaði og hugsaði en fann nú ekki ráð við þessum vanda þó ég sé ráðagóð. Hvernig gat ég verið haldaralaus að afgreiða fullt af fólki, það fór hrollur um mig. 

Ég get sko alveg sagt ykkur það að þó bolurinn sem ég nota í vinnunni sé langt í frávera gegnsær þá leið mér allt í einu eins og að hann væri það.

Ég sko meina það komplítlí, kemst ekki yfir þetta.

Sá alveg fyrir mér túristana biðjandi um að fá að taka mynd af The Icelandic girl, with the flaksandi búbís. 

Á myndunum væri ég með afsakaðu-fyrirgefðu bros.

Restin af nóttinni gekk slysalaust og við nána skoðun reyndist ég vera í öllum öðrum fötum sem ég ætlaði mér að klæðast og þakka ég Guði fyrir það. 

Einnig má þakka fyrir það að engan sakaði og ekki hafa enn borist tilkynningar um andleg örkuml.

 


Pólitísk átök

Ég var niðursokkin í að raða samlokum í búðahilluna. Búðin var mannlaus og í útvarpinu var þjóðmálaumræðan, kreppuumræðan vinsæla. Þjóðin náttúrulega í andarslitrunum útaf Geir Haarde og hans ríkisstjórn, svaka "stjórn". Einmitt.

-Get ég fengið afgreiðslu? Röddin hljómaði kunnuglega, ég leit upp og dauðbrá þegar ég sá hver stóð við borðið. Sjálfur og enginn annar en Geir Haarde.

-Fokking sjit í helvítinu. Geir Horde, þú og þín og þín lengsta langa vör. Hvernig dirfistu? Já, ég skal sko afgreiða þig góði minn! EN, TO, TRE.

Vissi ekki fyrr en ég spratt út úr hillunni og eftir tvö stökk hékk ég á bakinu á honum, gargandi og kýlandi hann í magann. Hann snerist í hálfhring og datt í gólfið. Settist á hann og keyrði hendurnar á honum í gólfið. Hann var eins og tuskudúkka í höndunum á mér og gat sig hvergi hreyft. Bara emjaði nefmæltur með blóðnasir: Harde, ekki Horde

- Hvernig heldur þú að mér líði? Helduru að mér finnist GAMAN að vinna hérna? Heldur þú að ég vildi ekki heldur vera heima að selja nuddbekki? Afhverju lætur þú svona við fólk? Það GETUR enginn keypt NUDDBEKKI ef þú lætur svona.

Ég sagði honum svo sannarlega til syndanna. Sagði honum frá fólkinu sem þarf að koma í nudd vegna vöðvabólgu sem það fékk af verðbólgunni og öllum vonbrigðum mínum vegna gengis íslensku krónunnar gagnvart evrunni og að ég hefði ekki komist í klippingu heillengi.

-Það er allt þér að kenna og meira til. Drullastu til að vera í vinnu sem þú ræður við. Hundskastu til að semja við trukkabílstjórana að minnsta kosti.

Til þess að klára málið tróð ég upp í hann stóru Snickersi sem festist i öllum tönnunum á manni. Helvítis kvikindið var búið að láta mig öskra mig hása og ég meiddi mig í hendinni þegar ég kýldi hann á kjaftinn. Já, þetta vill hann. Rústa mér gjörsamlega. Hættir ekki fyrr. Nú er hann er búinn að afreka það ofan á allt saman að nú er Snickers útum allt gólf, klukkan að verða 8 og samlokurnar ekki enn komnar í hilluna. Djísús, þetta er nú.. alveg....sko...toppurinn.

-Ég hrökk aftur upp úr hugsunum mínum: Viltu afritið?

-Andskotans rugl er þetta í þér kelling, ég kann ekkert með peninga að fara.  

Eða mér fannst hann allavegana segja það. Með augunum.

Hann dröslaðist út úr búðinni. Afgreiddur. Í huganum.

Til hamingju með daginn kæru samþrælar,

ég meina verkalýður.

 

 


Gleðilegt sumar

Nú er ég loksins komin í frí eftir 10 næturvaktir...já ég var orðin steikt í hausnum.

Er að vinna í aukavinnu með nuddinu á næturnar semsagt. Afgreiði þá sem úr flugi koma, það er mjög fyndið skal ég segja ykkur. Flugfarþegar eru skrýtið og pirrað fólk. Svo eru allir þessir "frægu" sem ég hitti. Það er gaman. Búin að hitta Fjölnir Þorgeirs, Eddu Björgvins, Jón Gnarr, allskonar fréttamenn og ég veit ekki hvað og hvað. Hehe.

Ég verð líka að segja ykkur í tilefni dagsins frá alvarlegum misskilningi sem ég varð fyrir sem barn.  Lagið: Nú er sumar gleðjist gumar....var alltaf gleðjist Guðmann og fannst mér alltaf svolítið óréttlátt að sungið væri um að hann ætti að gleðjast svona voðalega mikið.

En gleðjist öll elskurnar mínar.


Frænkurnar

Fór og sótti litlu frænkur mínar í dag til að hafa yfir helgina. Önnur er að verða 4 ára, hin byrjar í skóla í haust. Þær hafa komið reglulega til okkar síðan við fluttum í Kef. Þær eru alveg brill, svo fjörugar að maður þarf að hafa sig allan við...og það sem þeim dettur í hug... LoL

Um kvöldmatarleytið þurfti ég að fara út í bílskúr að hjálpa nágrannanum með varmaskiptirinn og segi þeim að bíða hjá inni hjá frænda sínum. Það leið ekki á löngu þar til þær voru komnar skælbrosandi, sú eldri í leggings og bol en sú yngri (andvarp) hafði fundið á sig smekkpils og húfu en ber að ofan að öðru leyti.  Þær skottast þarna í bílskúrnum að skoða drasl og ég fylgdist með þeim útundan mér. Sú eldri fer að skoða lyklaskáp sem ég hafði einhvern tímann keypt í Rúmmó og ætlað að lakka..þið vitið.

- Hvað er þetta? spyr sú yngri áhugasöm.

- Vá, þetta er skápur. Hún Rósa er alveg snillingur í að smíða!!

Þegar þær hafa fengið kvöldmat og bað er maður oftast alveg búinn á því og situr starandi í lazy-boy stólnum. Þá kemur sú yngri oft fangið á manni, nælir í eyrnasnepilinn á mér með annarri hendinni, hefur snudduna í hinni og segir með sinni blíðu rödd og augunum: Rósa mín.

Hvað getur maður gert?  Maður er bara bráðnuð smjörklessa!!  InLove

Þær eru alltaf svo blíðar og góðar við frænku sína.

 

 


Mér finnst....

Mér finnst...Mér finnst þættirnir á ÍNN alveg frábærir. Konur að spjalla um mismerkileg mál. En þær spjalla eins og konur gera og það gerir mig svo stolta af að vera kona.

Fyrir karlmenn í tilefni dagsins

Mig langar að segja ykkur frá 86 ára gamalli bók eða kveri réttara sagt sem fannst eitt sinn í einhverri tiltektinni einhversstaðar. Tilgangur þessa kvers er að fræða karlmenn um það hvernig best sé að ná hylli kvenna, halda henni og hvernig góður eiginmaður skuli haga sér.

"Alveg nauðsynleg til að koma í veg fyrir hjónaskilnaði" segir höfundur í formála. 

Fyrir 86 árum var ástin alveg jafn eftirsóknarverð og og hún er nú. En þá voru menn tilbúnir til að leggja mikið á sig til að kvænast og eins gott fyrir þá að vanda valið því hjónabandið átti að endast. Ekki til næstu áramóta, heldur fyrir lífstíð. Ef ekki tókst vel til þá sátu menn uppi með handónýtt hjónaband og "báru þess sár um æfilöng ár, sem að eins var stundarhlátur".   

Bókin: Leiðarvísir í ástamálum 1. fyrir karlmenn

Höfundur: Ingimundur gamli.  Útgefandi: Bókafélagið nýja - Reykjavík árið 1922

Hér eru tvö kver sem ég fann á www.gutenberg.net.  Endilega kíkið í kverin.

Alls urðu leiðbeiningarkver þessi 4 talsins og Jónína Sigríður Jónsdóttir samdi 4 kver til að fræða ungar stúlkur um karlmennina.  Ef þau bara vissu hvernig við högum okkur í dag....svei og sveiattan ! 

Þetta er ekkert grín. En bókin er sprenghlægileg og  "Alveg nauðsynleg til að koma í veg fyrir hjónaskilnaði" eins og höfundur segir í formála. 

P.s. Öskuur...get ekki lagað letrið. Búin að missa þolinmæðina í bili. W00t


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gúrkutíð

Hef ekki mikið til að tala um þessa dagana. Er á fullu á einkamál.is að kynnast sætum strákum! og horfa á sjónvarpið.. hef aðallega tekið eftir hárinu á fólki og finnst mér ótrúleg hárgreiðslan hans Þorfinns Ómars..heheh úps.  Sjálf er ég eins og brálaður vísindamaður þegar ég vakna. Aldrei svona...greitt í píku.

Logið að unga fólkinu

Ég er svo aldeilis yfir mig bloggandi hneyksluð á því sem getur gerst!!. Búin að þeytast um Reykjavíkina í dag á vegum nokkurra ungra manna. Þeir vinna allir hjá sama fyrirtækinu. Alltaf eitthvað vesen hjá greyjunum að fá útborgað á réttum tíma og að fá launaseðlana sína. En þeir vildu sjá um sín mál sjálfir eins og gengur hjá nærtvítugum. Eftir að þeir fengu nóg af allskonar útúrsnúningum og rugli fékk ég loksins að athuga málið fyrir þá og byrjaði á að senda bréf til fyrirtækisins um að þeir myndu hætta fengu þeir ekki launaseðlana....jú, launaseðlarnir komu og nú mánuði seinna fór ég að athuga hvort launaseðlarnir væru réttir og hvort ekki örugglega væri búið að borga í sjóði, félög og RSK. En nei þetta voru lygalaunaseðlar og ekkert hefur verið greitt í næstum heilt ár!! Hvernig er þetta hægt?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband