1.5.2008 | 12:28
Pólitísk átök
Ég var niðursokkin í að raða samlokum í búðahilluna. Búðin var mannlaus og í útvarpinu var þjóðmálaumræðan, kreppuumræðan vinsæla. Þjóðin náttúrulega í andarslitrunum útaf Geir Haarde og hans ríkisstjórn, svaka "stjórn". Einmitt.
-Get ég fengið afgreiðslu? Röddin hljómaði kunnuglega, ég leit upp og dauðbrá þegar ég sá hver stóð við borðið. Sjálfur og enginn annar en Geir Haarde.
-Fokking sjit í helvítinu. Geir Horde, þú og þín og þín lengsta langa vör. Hvernig dirfistu? Já, ég skal sko afgreiða þig góði minn! EN, TO, TRE.
Vissi ekki fyrr en ég spratt út úr hillunni og eftir tvö stökk hékk ég á bakinu á honum, gargandi og kýlandi hann í magann. Hann snerist í hálfhring og datt í gólfið. Settist á hann og keyrði hendurnar á honum í gólfið. Hann var eins og tuskudúkka í höndunum á mér og gat sig hvergi hreyft. Bara emjaði nefmæltur með blóðnasir: Harde, ekki Horde
- Hvernig heldur þú að mér líði? Helduru að mér finnist GAMAN að vinna hérna? Heldur þú að ég vildi ekki heldur vera heima að selja nuddbekki? Afhverju lætur þú svona við fólk? Það GETUR enginn keypt NUDDBEKKI ef þú lætur svona.
Ég sagði honum svo sannarlega til syndanna. Sagði honum frá fólkinu sem þarf að koma í nudd vegna vöðvabólgu sem það fékk af verðbólgunni og öllum vonbrigðum mínum vegna gengis íslensku krónunnar gagnvart evrunni og að ég hefði ekki komist í klippingu heillengi.
-Það er allt þér að kenna og meira til. Drullastu til að vera í vinnu sem þú ræður við. Hundskastu til að semja við trukkabílstjórana að minnsta kosti.
Til þess að klára málið tróð ég upp í hann stóru Snickersi sem festist i öllum tönnunum á manni. Helvítis kvikindið var búið að láta mig öskra mig hása og ég meiddi mig í hendinni þegar ég kýldi hann á kjaftinn. Já, þetta vill hann. Rústa mér gjörsamlega. Hættir ekki fyrr. Nú er hann er búinn að afreka það ofan á allt saman að nú er Snickers útum allt gólf, klukkan að verða 8 og samlokurnar ekki enn komnar í hilluna. Djísús, þetta er nú.. alveg....sko...toppurinn.
-Ég hrökk aftur upp úr hugsunum mínum: Viltu afritið?
-Andskotans rugl er þetta í þér kelling, ég kann ekkert með peninga að fara.
Eða mér fannst hann allavegana segja það. Með augunum.
Hann dröslaðist út úr búðinni. Afgreiddur. Í huganum.
Til hamingju með daginn kæru samþrælar,
ég meina verkalýður.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Verð að hrósa þér fyrir skemmtilegan Rósu-pistill.
Vissi reyndar ekki að þú værir svona ofbeldisfull ...
... en,Vóóó ... það er eins gott að hafa varan á málum gagnvart þér allavega.
En fyndin eru, það verður ekki af þér tekið.
Gísli Hjálmar , 3.5.2008 kl. 12:28
Takk Gísli.
Ofbeldishneigð mín er einungis undir hárinu á mér, nema ef ég sé flugur. Hef svakalega fordóma gagnvart þeim.
Annars er ég alltaf í góðu skapi eins og þú veist, nema þegar ég er í vondu.
Rósa Jóhannesdóttir, 4.5.2008 kl. 13:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.